Kærunefnd húsamála
Algengar fyrirspurnir og svör
Nokkrar algengar fyrirspurnir og svör með vísan til álitsgerða kærunefndar fjöleignarhúsamála
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 19/1995 kemur fram að áaðalfundi húsfélags var lagt fram rekstraryfirlit ársins. Kærunefnd bendir á að skv. 72. gr. laga nr. 26/1994 skal stjórn húsfélags sjá um að bókhald húsfélags sé fært og haldið á réttan og fullnægjandi hátt. Þannig skulu á tíðkanlegan hátt færðir glöggir efnahags- og
rekstrarreikningar. Rekstaryfirlitið veiti ekki nægjanlegar upplýsingar um málefni húsfélagsins, rekstur þess, efnahag og fjárhagsstöðu, eins og nauðsynlegt var og lög gera ráð fyrir. Var því óheimilt að bera það upp til samþykktar á aðalfundinum sem ársreikninga húsfélagsins.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 6/1996 kemur fram að boðað hafi verið til húsfundar og átti að ræða skýrslur fagmanna. Þar sem skýrslurnar bárust ekki fyrir fundinn var honum frestað. Kærunefnd bendir á að í lögum um fjöleignarhús sé ekki að finna sérstök ákvæði um frestun húsfunda og því gilda um það atriði almennar
reglur félaga og fundarskapa. Samkvæmt þeim hefur stjórn heimild til að fresta fundi, liggi til þess lögmætar ástæður.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 50/1996 er á það bent að boða skal til aðalfundar með skriflegum og sannanlegum hætti, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 26/1994. Ef boða á til fundar með tryggilegum hætti verður að gera það með ábyrgðarbréfi, skeyti eða á annan sannanlegan hátt. Það fer þó eftir atvikum og aðstæðum og jafnvel venjum í viðkomandi húsi hvað telst nægileg fundarboðun og hvernig skuli að henni staðið. Hafi til dæmis skapast sú venja að boða til aðalfundar með því einu að hengja upp fundarboð á viðeigandi stað í sameign hússins, afhenda hverjum og einum eiganda fundarboð eða setja það í póstkassa viðkomandi þá hefur það talist fullnægjandi. Hafa ber þó í huga að það er húsfélagið sem ber hallann af því ef því er haldið fram að viðkomandi hafi ekki fengið fundarboð eða ekki hafi verið boðað til fundar með nægilegum fyrirvara.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 50/1996 er á það bent að skv. 40. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þá er eigandi sem ekki hefur verið boðaður á húsfund með þeim hætti sem lögin mæla fyrir um ekki bundinn af ákvörðunum sem á þeim fundi eru teknar nema því aðeins að hann hafi sótt fund óboðaður eða þrátt fyrir
ófullnægjandi boðun.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 9/1998 kemur fram að sérhverjum eignarhluta í fjöleignarhúsi fylgir réttur til aðildar að húsfélagi og til að eiga hlut að ákvarðanatöku um sameignina og sameiginleg málefni. Þar af leiðir að þegar sami eigandi er að fleiri en einum eignarhluta í fjöleignarhúsi hefur hann atkvæðisrétt sérstaklega fyrir hverja eign fyrir sig.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 7/1995 kemur fram að þegar ákvæði um fyrirkomulag kosninga er ekki að finna í lögum eða samþykktum félaga sé rík venja að þessi atriði ráðist af almennum fundarreglum eða fundarsköpum. Við atkvæðagreiðslu á húsfundum sé ekkert í vegi að beita því fyrirkomulagi sem einfaldast sé hverju sinni, svo sem handauppréttingu. Hins vegar sé það meginregla, samkvæmt almennum fundarreglum, að hver og einn fundarmanna getur krafist þess að ákvörðun sé tekin á leynilegan hátt, þ.e. skriflega. Er þá skylt að verða við þeirri ósk.
Rökin, sem að baki þessari reglu búa, eru þau að með skriflegri atkvæðagreiðslu sé verið að styrkja það mikilvæga lýðræðislega atriði, að unnt sé að neyta atkvæðis síns óttalaust og án þess að verða fyrir áhrifum eða þrýstingi frá öðrum.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 19/1995 kemur fram að skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 26/1994, verða mál ekki tekin til atkvæðagreiðslu nema þeirra hafi verið getið í fundarboði. Séu allir félagsmenn mættir getur fundurinn samþykkt afbrigði frá þessari reglu, sbr. 4. mgr. 62. gr.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 7/1995 kemur fram að í 2. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994 sé gert ráð fyrir að atkvæði sem greidd séu á húsfundi séu talin og færð til bókar á þeim sama fundi. Samkvæmt því eiga allir fundarmenn húsfélagsins rétt á því að vera viðstaddir talningu atkvæða. Aðstæður geta hins vegar ráðið því að nauðsyn verði talin á að talning atkvæða fari fram annars staðar en á fundinum sjálfum. Ber þá að leggja tillögu fram á fundinum til samþykktar eða synjunar um að svo skuli gera, og sjá til þess við staðarval að þeir sem þess óska eigi kost á fylgjast
með talningu. Ekkert sé því í vegi að skipuð sé þriggja manna kjörstjórn til að annast talningu atkvæða enda hafi tillaga
um það verið samþykkt á fundi. Í slíka kjörstjórn eru stjórnarmenn kjörgengir, sem og aðrir fundarmenn. Sé slík tillaga
ekki samþykkt, stjórnar formaður húsfélagins talningu ásamt fundarmönnum eða þeim sem hann kallar til sér til
aðstoðar. Engin þörf sé því á að fela utanaðkomandi aðila að framkvæma talningu atkvæða.
Í álitsgerð kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 15/2000 er á það bent að skv. 4. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994 um
fjöleignarhús skulu fundargerðir jafnan vera aðgengilegar fyrir félagsmenn og eiga þeir rétt á því að fá staðfest endurrit
eða ljósrit þeirra og því telur nefndin eðli máls samkvæmt að leiði það til kostnaðar fyrir húsfélagið að endurrita
fundargerð eða að ljósrita hana þá teljist sá kostnaður til sameiginlegs kostnaðar við rekstur húsfélagsins, sbr. 6. tölul.
B-liðar 1. mgr. 45. gr. laganna. Nefndin taldi því að samþykkt sem gerð var á fundi hússtjórnar þess efnis að afhenda
eiganda aðeins fundargerð húsfunda gegn sérstöku gjaldi skorti með öllu lagaheimild.